143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:37]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í umræðum um það mál sem hér er til umfjöllunar, bæði í þessari umræðu í þinginu og í samfélaginu almennt þegar þessi mál hefur borið á góma, þ.e. spurninguna um aðild eða ekki aðild Íslands að Evrópusambandinu, þá hefur mikið verið talað um hvort menn viti nákvæmlega hvað felst í aðild að Evrópusambandinu eða ekki, hvort hægt sé að taka afstöðu til þess hér og nú hvort þjóðin vill ganga í Evrópusambandið eða ekki eða hvort það sé nauðsynlegt að fá fram samningsniðurstöðu til að mönnum sé fyllilega ljóst hvað aðild að Evrópusambandinu þýðir.

Í mínum huga er margt ljóst við aðild að Evrópusambandinu en það er líka ýmislegt sem ekki er ljóst. Það lýtur m.a. að þeim atriðum sem við settum fram í nefndaráliti utanríkismálanefndar frá árinu 2009 um meginhagsmuni okkar. Margt í því er óljóst varðandi hver niðurstaðan yrði eins og ég lít á málið. Til að fá úr því skorið þarf þess vegna að fá samningsniðurstöðu til að menn geti tekið endanlega afstöðu til spurningarinnar um aðild eða ekki aðild að Evrópusambandinu.

Vissulega hafa mjög margir nú þegar mótað sér mjög ákveðna skoðun á því að vera annaðhvort fylgjandi eða andsnúnir því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og það er ekkert að því að menn hafi sannfæringu í því efni. Hún byggist þá ekki endilega og kannski alls ekki á samningsniðurstöðu í einstökum málaflokkum sem verið er að semja um, heldur á almennum sjónarmiðum að því er varðar þátttöku í alþjóðasamstarfi eins og Evrópusambandið er. En það hefur ítrekað komið fram, m.a. í skoðanakönnunum, að verulegur hluti þjóðarinnar vill fá að sjá samningsniðurstöðu til að geta tekið afstöðu og mun fólk þá væntanlega láta útkomuna í þeim köflum sem varðar það mestu ráða endanlegri afstöðu sinni. Það geta verið sjávarútvegsmál hjá sumum, landbúnaðarmál hjá öðrum, byggðamál hjá einhverjum enn öðrum, umhverfismál, vinnuréttarmál o.s.frv. Það er ekkert eitt rétt í því. Menn geta alveg haft mismunandi skoðanir út frá mismunandi forsendum og menn eiga rétt á því.

Það var hins vegar mjög athyglisvert að í samtölum mínum við hv. þm. Frosta Sigurjónsson, í andsvörum fyrr í þessari umræðu, þá spurði ég hann hvort hann sæi einhverja leið til að fá úr því skorið nákvæmlega hvað fælist í aðild að Evrópusambandinu aðra en þá að fá samningsniðurstöðuna á borðið. Hann staðfesti það hér í svari við fyrirspurn minni að líklega væri engin önnur leið. En því hefur einmitt verið haldið á lofti í þessari umræðu að hægt sé að gera upp hug sinn nú þegar. Því hefur m.a. verið haldið fram úr ræðustól í þessari umræðu að það sé óheiðarlegt að halda því fram að hægt sé að gera upp hug sinn á grundvelli samningsniðurstöðu, það sé óheiðarlegt að kíkja í pakkann, eins og sumir kalla það, þ.e. fá fram samningsniðurstöðu og taka afstöðu á þeim grundvelli. Ég segi fyrir mína parta að ég tel ekkert óheiðarlegt við það. Það eru margir sem vilja einmitt fá niðurstöðuna á borðið og það sjáum við ítrekað í skoðanakönnunum og það sjáum við á þeim viðbrögðum sem nú hafa komið fram í samfélaginu að undanförnu með um 50 þúsund undirskriftir fólks sem vill fá þjóðaratkvæðagreiðslu vegna þeirra loforða sem gefin voru. Í þeim hópi er bæði fólk sem er fylgjandi og andsnúið aðild að Evrópusambandinu. Það vill fá að koma að ákvörðun í þessu máli líkt og margítrekað var í aðdraganda kosninga. Allir stjórnmálaflokkar hafa í raun sagt á einum eða öðrum tíma að þjóðin ætti að taka ákvörðun um afstöðuna til Evrópusambandsins.

Þess vegna höfum við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði lagt fram þingsályktunartillögu okkar inn í umræðuna sem viðbrögð við tillögu hæstv. utanríkisráðherra og við lítum á það sem sáttaleið. Það er ekki endilega sú leið sem við hefðum farið ef við réðum ein ferðinni, en við erum að reyna að ná utan um málið og reyna að ná sem breiðastri sátt með því að leggja þá til að gert verði formlegt hlé á aðildarviðræðunum þannig að núverandi hæstv. ríkisstjórn standi ekki í þeim viðræðum sem hún er andsnúin, við horfumst bara í augu við það og við viðurkennum að það er kannski ekki skynsamlegt. Jafnframt leggjum við til að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir lok kjörtímabilsins eins og talað hefur verið um og lofað þannig að við eða fyrir næstu kosningar liggi fyrir leiðsögn þjóðarinnar hvað þetta atriði varðar. Stjórnmálaflokkarnir geta þá tekið afstöðu til þess hvort þeir vilja virða þá niðurstöðu sem kemur úr þeirri þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) eða ekki og við myndun næstu ríkisstjórnar lægi sú leiðsögn fyrir. (Forseti hringir.) Ég hvet eindregið til þess að þingmenn stjórnarflokkanna (Forseti hringir.) íhugi vandlega þá tillögu sem við þingmenn Vinstri grænna höfum lagt fram í þessu sambandi.