143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að ganga ferlið á enda og þjóðin eigi að segja sína skoðun á niðurstöðunni. Til vara mundi ég fallast á kröfu þjóðarinnar og þeirra 50 þúsund manna sem hafa skrifað undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að leggja þessa tillögu til hliðar og leyfa þjóðinni að ákveða hvort viðræðunum verði haldið áfram eða þeim slitið. Mér finnst það vera sáttatillagan og sáttatónninn sem við eigum að slá. Við munum sjá hvað kemur út úr þessu og ríkisstjórn sem ekki getur farið að þjóðarvilja og getur ekki fundið út úr því sjálf verður náttúrlega að finna sér eitthvað annað að gera.

Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af nýsköpunarstefnu í höftum? (Forseti hringir.) Sér hann einhverja leið út úr höftunum í náinni framtíð?