143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[16:50]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður gerði það nokkuð að umtalsefni að sumir láta eins og það sé óheiðarlegt eða ekki nógu gott að menn vilji sjá samning áður en þeir taka endanlega afstöðu til þess hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið eða ekki, og menn kalla það sjónarmið „að kíkja í pakkann“ í niðurlægingarskyni.

Mér heyrist við hv. þingmaðurinn vera sammála um að það sé síður en svo óeðlilegt, það hljóti að vera sú eina afstaða sem fólk getur tekið þegar það tekur að lokum ákvörðun um hvar við höldum að framtíð okkar sé best tryggð, hvort sem það á við um gjaldmiðilinn, ný fyrirtæki eða bara hvernig framtíð okkar sé best tryggð.

Nú er það ekki svo að ekkert hafi verið rætt um aðild að Evrópusambandinu fyrr en tillagan var samþykkt í þinginu 2009. Þá var hins vegar alltaf sagt: Málið er ekki á dagskrá. Það þurfti aldrei að svara neinu um það, það var bara alltaf sagt: Málið er ekki á dagskrá. Menn buðu andstæðingum sínum ekki upp á vondan plokkfisk, þeir sögðu bara við fólk: Éttu það sem úti frýs.

Mig langar að spyrja þingmanninn hvort það sé ekki bara þetta sem vaki núna fyrir stjórnvöldum, að það sé ekkert á borðinu og menn geti héðan í frá vísað öllu á bug og sagt eins og þeir gerðu áður fyrr: Málið er ekki á dagskrá, við þurfum ekki að ræða það. Það er svolítið alvarlegt þykir mér. Þá eru náttúrlega ákveðin öfl í þjóðfélaginu búin að ná sínu fram.