143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:02]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Kærar þakkir, herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svar hans við andsvari mínu, það var mjög upplýsandi. Ég er mjög glöð að heyra að hv. þingmaður styður það að þingmálið komist til nefndar. Ég held að það sé mjög gott að við getum verið sammála um það, ég vona að það séu ekki margir á þeirri skoðun að þingmál eigi ekki að komast til nefndar til frekari umræðu þannig að hægt sé að fá gesti o.s.frv.

Ég verð samt að segja varðandi hina spurninguna að við erum ekki sammála um hvort vegferð síðustu ríkisstjórnar hafi leitt til góðs eða ekki en við hljótum að minnsta kosti að vera sammála um að hún skilaði ekki þeirri niðurstöðu sem stefnt var að. Að því leyti til hljótum við að vera sammála um að sú aðferðafræði að kíkja í pakkann virkar ekki, ekki þegar við höfum þá forsögu sem við röktum áðan varðandi það að annar flokkurinn vildi inn og hinn ekki. Hvers vegna gekk þá ekki planið betur upp þegar menn sögðu hér sumir hverjir að það mundi taka mjög skamman tíma að semja við Evrópusambandið?