143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:12]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa athugasemd. Nú er það svo að það var niðurstaða okkar síðasta landsfundar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði að réttast væri að ljúka viðræðum sem fyrst, helst innan árs, og leggja niðurstöðuna í dóm þjóðarinnar. Það má þó segja að sú niðurstaða hafi líka miðast við þær forsendur að Vinstri hreyfingin – grænt framboð yrði áfram í stjórnarsamstarfi á vinstri vængnum, sem hefði auðvitað verið okkar fyrsta val að loknum kosningum. Sú tillaga sem við leggjum fram er í raun og veru viðbrögð við tillögu hæstv. ríkisstjórnar, sem leggur tillögu sína fram, og við teljum hana vera vænlega leið til sátta milli ólíkra sjónarmiða.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefnir um undirbúning og hvernig hægt sé að undirbúa ákvarðanir betur má vissulega segja að sú leið að fara í það að óska eftir skýrslu Hagfræðistofnunar hafi verið tilraun til þess að undirbúa ákvarðanatöku, en þá hefðum við líka þurft að fá almennilegan tíma hér á þingi til að ræða þá skýrslu, ræða það sem ég hef til að mynda bent á að ég telji að vanta í þá skýrslu, sem er félagshagfræðileg greining á stöðu mála innan Evrópusambandsins, og gefa hv. þingmönnum tækifæri til að fara djúpt ofan í þau mál.

Síðan er annað sem gerir þetta viðfangsefni sérstaklega flókið og það er að hér er ekki um afmarkaða ákvörðun að ræða, línulögn yfir Sprengisand. Sú ákvörðun er nokkuð einföld í raun og veru, það er hægt að grafast fyrir um öll gögn og komast að endanlegri niðurstöðu. Í tilfelli Evrópusambandsins má segja að sú undirbúningsvinna og allar þær kannanir sem voru gerðar, til að mynda á árunum 2007 og 2008 þegar starfaði Evrópunefnd sem ég sat í, á þeim árum sem ég sat í annarri Evrópunefnd, 2004–2007, síðan þá hefur sambandið tekið heilmiklum breytingum. Það má því segja að undirbúningsvinnan verði að taka mið af því að hér er um organískt fyrirbæri að ræða. Það að tala um Evrópusambandið núna (Forseti hringir.) gæti verið annað en að ræða það 2017.