143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað varðar orð hv. þingmanns um hagsmunamat er það vissulega svo að sum okkar teljum okkur vita um það bil hvað samstarfið innan Evrópusambandsins gengur út á. Ég er ein þeirra sem hef sagt að ég telji mig að langmestu leyti vita út á hvað Evrópusambandið gengur, hvað felist í því að taka þátt í slíku samstarfi, ekki aðeins út frá hagsmunum Íslands heldur fyrir alla þá sem taka þátt í slíku samstarfi.

Ég ber hins vegar virðingu fyrir þeim sjónarmiðum sem segja að mikilvæg sé fyrir fólk til að geta tekið afstöðu til málsins að hafa einhverja niðurstöðu, hafa samningsniðurstöðu á borðinu. Það sjónarmið spilaði auðvitað inn í þá ákvörðun sem við tókum í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði 2009 þegar við héldum fast í þá ákvörðun okkar að þetta væri eitthvað sem ætti að koma til úrlausnar þjóðarinnar, en út frá þessum sjónarmiðum væri eðlilegt að einhvers konar samningsniðurstaða lægi fyrir. Ég ber virðingu fyrir þeim sjónarmiðum.

Hvað varðar tillögu okkar, sem hv. þingmaður spyr um, (Forseti hringir.) þá nefnum við að eðlilegt sé að þverpólitískur hópur stuðli að upplýstri umræðu um málið til undirbúnings (Forseti hringir.) þjóðaratkvæðagreiðslu, og ég sé ekkert því til fyrirstöðu að (Forseti hringir.) það verði útfært nánar.