143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:20]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Nú sit ég í stjórnarskrárnefnd sem hefur verið skipuð, þar sem við erum einmitt að ræða þetta ólíka fyrirkomulag. Ég tel raunar að hvorugt fyrirkomulagið þurfi að útiloka hitt. Það er fullkomlega hægt að hugsa sér það að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál. Það er líka hægt að hugsa sér að samhliða því geti tiltekinn hluti þingmanna krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál.

Ég er hins vegar ekki þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðslur séu endilega eitthvað sem við eigum að stefna að að hafa hér á tveggja vikna fresti, heldur eigi þær, held ég, að snúast um stór mál, afdrifarík mál, en til að komast hjá ólgu og ósætti sé mikilvægt að stjórnmálamenn hugi að því hvernig hægt sé nákvæmlega að haga samráði um mál þannig að hægt verði að komast fram hjá slíkri ólgu. Það er mín skoðun því að ég held að eðlilegra sé að þjóðaratkvæðagreiðslur heyri til undantekninga fremur en hitt.

Hvað varðar danska fyrirkomulagið hef ég talið að það fyrirkomulag eitt og sér geti orðið til þess að bæta talsvert umræðuhefðina á þingi. Það hefur stundum verið sagt að það sé ekki góð hugmynd að veita tilteknum minni hluta þingmanna þennan rétt, að geta skotið málum til þjóðarinnar, af því að hér sé svo mikill pólitískur óstöðugleiki á þinginu, mikil læti alltaf hreint, og þetta geti bara ekki virkað hér. En ég velti í þessu tilfelli fyrir mér hvort kom á undan eggið eða hænan, þ.e. hvort slíkur möguleiki minni hluta þingmanna skapi þá kannski jafnvel betri umræðumenningu þannig að málþóf sé til að mynda ekki eina leiðin til að stoppa einhver stór og umdeild mál og slíkt fyrirkomulag kalli á aukið samtal meiri hluta og minni hluta. Þessu velti ég fyrir mér.

Hvað varðar hitt fyrirkomulagið sem hv. þingmaður lýsti stuðningi við hefur það verið stefna Vinstri grænna að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég sé ekki endilega (Forseti hringir.) að annað fyrirkomulagið útiloki hitt.