143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:30]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg sammála hv. þingmanni, sem kemur ekki á óvart í ljósi þeirrar afstöðu sem mín hreyfing tók í þessu máli, sem var að þetta væri mál af slíkri stærðargráðu að rétt væri að þjóðin tæki þá ákvörðun. Við lögðum ekki þá ríku áherslu sem ég hef heyrt hjá fleiri hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins að vilji þings og þjóðar þyrftu að fara saman í málinu.

Síðan kemur að því sem ég hef mikið velt fyrir mér upp á síðkastið í kringum þessa umræðu, að auðvitað koma upp mál þar sem afstaða til að mynda flokka fer ekki saman við það sem þjóðin segir. Ég nefni sem dæmi afstöðu manna til þjóðkirkjunnar, sem er auðvitað mjög stórt mál fyrir hvert samfélag. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við hv. þingmenn veltum því fyrir okkur þegar þjóðin hefur lýst afstöðu sinni, segjum bara í allt öðru og óskyldu máli til þess að taka þetta út úr þessu samhengi, hvernig eiga þá stjórnmálaflokkarnir að standa að því nákvæmlega? Þrátt fyrir að við höfum enga bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu ber ekki stjórnmálaflokkum að taka að einhverju leyti tillit til (Forseti hringir.) þess vilja sem fram kemur í slíkum þjóðaratkvæðagreiðslum?