143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki framsóknarmaður. Það væri eflaust gaman að ræða Framsóknarflokkinn hér við hv. þingmann en ég ætla að sleppa því.

Mig langar að spyrja hann aðeins út í sjávarútvegsmálin. Ég veit að hann er áhugamaður um þau og við eigum að byggja þessa umræðu á þeirri stöðuskýrslu sem við fengum hingað til umræðu. Þar kemur fram:

„Ólíklegt er að hægt sé að sækja um varanlega undanþágu frá takmörkunum varðandi fjárfestingar útlendinga í sjávarútvegsfyrirtækjum. Hugsanlega væri hægt að fá tímabundnar undanþágur til aðlögunar, t.d. með því að setja skilyrði um búsetu. Einnig má telja óvíst að hægt verði að setja skilyrði um hömlur á framsal aflaheimilda til annarra en Íslendinga eða íslenskra fyrirtækja. Þá er ljóst að samningsumboð við lönd utan Evrópusambandsins, t.d. vegna veiða úr deili- og flökkustofnum, verður á hendi Evrópusambandsins en ekki einstakra ríkja. Leitað er samráðs við aðildarlöndin í slíkum tilvikum.“

Að lokum:

„Þá er ljóst að ekki væri hægt að fá undanþágu frá ákvæðinu um að heildarafli í helstu veiðum skuli ákvarðaður formlega á vettvangi Evrópusambandsins, þrátt fyrir að lögsaga Íslands yrði skilgreind sem sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði.“

Ég vil spyrja hv. þingmann út í þær skoðanir sem koma fram í skýrslunni og hvort hann telji að nýjasta útspilið, að við skyldum ekki vera tekin með í samninga varðandi makrílinn, hafi áhrif á framhaldið. Eru þetta ákveðin skilaboð frá Evrópusambandinu til okkar? Ég ætla nú ekki að vera með stórar meiningar um að við viljum ekki ljúka þeim viðræðum sem farnar voru af stað, maður má kannski ekki ætla mönnum slíkt. Ég vil heyra sjónarmið hans varðandi þessa þætti.