143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:43]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins varðandi það sem hv. þingmaður ræddi í lok andsvars sín, um íslensku sjávarútvegsstefnuna sem Evrópusambandið er að taka upp. Það geta verið skiptar skoðanir á því hvað sé best að taka upp og hvað ekki og hvað sé verst við sjávarútvegsstefnu okkar og hvað sé aftur betra. Sjálfbærar veiðar eru auðvitað aðalatriðið og mér finnst mjög merkilegt hvernig það er skrifað inn í hina nýju sjávarútvegsstefnu, þó sýnist mér ekki beint hafa verið farið eftir henni núna í plottinu í Edinborg þar sem Evrópusambandið og tvær þjóðir náðu samkomulagi. En það er annað mál.

Hvort um sérhagsmunagæslu sé að ræða hvað varðar þingsályktunartillöguna um að slíta viðræðunum þá ég veit það ekki. Maður leiðir hugann að ýmsu eins og ég sagði í ræðu minni. Hvað er það sem orsakar þennan ofboðslega flýti? Hvað var það sem kallaði á það þegar umræðan var rétt að byrja um skýrsluna að efnislegri umræðu væri næstum lokið, eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði og skellti svo fram þessari tillögu beint ofan í það? (Forseti hringir.) Ég geri mér ekki grein fyrir því, en ég geri mér grein fyrir því að stefna Heimssýnar er að hluta utanríkisstefna (Forseti hringir.) þessarar ríkisstjórnar.