143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:45]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Möller spyr: Hvað hefur breyst í Framsóknarflokknum frá árinu 2009? Það er rétt að benda honum á, ef hann skyldi ekki vita það, að stór hluti þingmanna Framsóknarflokksins í dag var nú ekki einu sinni skráður í flokkinn árið 2009, a.m.k. 10 af 19 þingmönnum flokksins, við skulum hafa það á hreinu.

Ég ætla líka að benda hv. þingmanni á ályktun flokksþings framsóknarmanna frá síðasta ári, en þar segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Íslendingar skulu áfram leita eftir samstarfi við þjóðir innan og utan Evrópusambandsins á grundvelli frjálsra og sanngjarnra samninga og samvinnu sem byggir á jöfnuði og ábata allra aðila. Með slíkum samskiptum geta íslensk stjórnvöld best tryggt hagsmuni Íslands á hverjum tíma. Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins.“

Þetta kemur fram í ályktun flokksþings framsóknarmanna á síðasta ári.

Spurning til hans: Hann sagði hér áðan, hv. þingmaður, að undirritaður hefði haft fögur orð um Evrópusambandið í Kringlunni í aðdraganda kosninga á síðasta ári. Mér þætti vænt um að vita hvaða orð það eru sem hann er að vísa til þar, sem ég á að hafa sagt um Evrópusambandið.