143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[17:52]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fer fjögur ár aftur fyrir minn þingfestutíma, (UBK: Nú, má …?) 1995, og allt í besta lagi með það. Sá sem hér stendur er upprunninn í gamla góða Alþýðuflokknum en ekki Alþýðubandalaginu þannig að hann skrifaði aldrei upp á útflutningsleiðina sem núverandi forseti lýðveldisins var höfundur að, ef ég man rétt, og setti fram í kosningabæklingi 1995. Það gæti vel verið að ég gæti fundið þann bækling eins og ýmislegt annað sem skrifað hefur verið.

Þetta snýst um hvað menn segja og hvað menn boða í kosningum, já, það snýst um það. Mér finnst það mjög merkilegt og að menn þurfi að standa við þau orð eins og fimm núverandi ráðherrar Sjálfstæðisflokksins sögðu í aðdraganda síðustu kosninga það sem þeir hafa vafalaust lært utan bókar og búið hefur verið til af PR-mönnum Sjálfstæðisflokksins í Valhöll um að þetta deilumál skyldi leitt til lykta, að auðvitað fengi þjóðin að greiða atkvæði um hvort halda ætti áfram viðræðum eða ekki.

Ég veit ekki hvað hv. þingmaður sagði í Suðurkjördæmi, ég var hinum megin á landinu, beint á móti, í norður. Ég veit hins vegar hvað oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi hefur sagt um þetta og ég tel einfaldlega að þegar við segjum svona hluti í kosningabaráttu eigi menn að standa við þá alveg eins og ég veit að hæstv. heilbrigðisráðherra, sem hér stendur, ætlar að standa við það sem hann birti í svari til sjálfstæðismanna í gagni þeirra sem sent var öllum sjálfstæðismönnum fyrir síðustu kosningar.