143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:03]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. ríkisstjórn og þá sérstaklega hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa sýnt þessari þjóð algera óvirðingu með því að segja blákalt að þeir ætli að svíkja loforð sem þeir gáfu fyrir kosningar. Það er ekki neinum vafa undirorpið. 50 þúsund manns hafa skrifað undir beiðni um að menn standi við orð sín. Það er ekki farið fram á meira. Hinir ágætu hæstv. ráðherrar sýna fólkinu úti og okkur, það er allt í lagi með okkur en annað með kjósendurna, þá óvirðingu að mæta ekki í þingsal. Þeir tala ekki einu sinni í þessari umræðu.

Þrisvar í gær var beðið um að þessir menn kæmu hingað. Það var beðið um það með 12 tíma fyrirvara eða 24 tíma fyrirvara, ég veit ekki hvað það var, en þeir láta ekki svo lítið að koma og standa fyrir máli sínu og útskýra af hverju þeir svíkja gefin loforð.