143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:05]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég tel mjög sérkennilegt að amast við því að þingmenn og ráðherrar komi hingað til að taka þátt í atkvæðagreiðslum sem boðaðar eru í þinginu. Við höfum gengið of langt þegar við erum farin að amast við því.

En af því að við höfum talað um að menn ræði hér málin í mikilli sátt þá kom það fram hjá einum hv. þingmanni stjórnarandstöðunnar í umræðum um fundarstjórn forseta að viðkomandi berðist gegn því að þetta mál færi til þingnefndar. Það hefur komið fram. Ég hef gert reynt að kanna hvort allir þingmenn stjórnarandstöðunnar séu á þessari skoðun og hef fengið það fram hjá hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, að vinstri grænir berjast ekki gegn því að málið fái þinglega meðferð, þvert á móti, þeir vilja að málið fari í nefnd og fái þar umræðu. Ég kalla eftir því að menn spyrji sjálfa sig að því hvort það sé rétt afstaða hjá þingmönnum sem tala um það í öðru orðinu að þeir vilji ræða þetta mál á málefnalegan hátt en segja svo í hinu orðinu að þeir berjist gegn því að málið (Gripið fram í.) fari til umræðu í nefnd. (Gripið fram í.)