143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég var einnig undrandi á að það skyldi allt í einu boðað til atkvæðagreiðslu um kvöld- eða næturfund einfaldlega vegna þess að við höfum bæði í gær og í dag átt hér ágætlega málefnalega umræðu í björtu um þetta mál og sú umræða er langt komin þannig að ég sé enga sérstaka þörf á því að breyta taktinum í þessu eða andrúmsloftinu og stemningunni. Það hefur fyrst og fremst verið einn ljóður á þessari umræðu eins og hún hefur farið fram í gær og í dag og það er alger fjarvera hæstvirtra ráðherra. Það er það ótrúlega virðingarleysi sem forustumenn ríkisstjórnarinnar sýna þessu stóra máli að láta ekki sjá sig hér. Með fullri virðingu fyrir hæstv. utanríkisráðherra þá er þetta mál af þeirri stærðargráðu að það er eðlilegt að ætlast til þess að forustumenn ríkisstjórnarflokkanna séu hér líka til svara og þátttöku í umræðunni.

Reyndar er það virðingarleysi að verða fordæmalaust sem hæstv. forsætisráðherra sýnir Alþingi með fjarveru sinni með því að taka nánast aldrei þátt í sérstökum umræðum og koma í veg fyrir það með fjarveru sinni og synjun að hægt sé að taka við hann sérstaka umræðu. Ég krefst þess, eigi að halda hér áfram, að ráðherrarnir verði þá viðstaddir til loka þessarar umræðu.