143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég efast ekkert um að hæstv. forseti hefur lagt sig fram við það í dag að reyna að ná sáttum eða halda utan um þetta mál og reyna að koma því í einhvern farveg, en það hefur greinilega ekki tekist. Ég tel þetta mjög alvarlega niðurstöðu. Með þeirri ákvörðun að halda kvöldfund er verið að senda okkur þingmönnum sem höfum tekið þátt í þessari umræðu langt nef og verið að hella olíu á eld. Menn rétta ekki fram neina sáttarhönd í þessu máli sem hefði verið hægt hefðu menn haft þroska til að lenda málinu og horfa til þess að þjóðin fylgist með umræðunni. Þjóðin fylgist með þegar menn halda áfram að þverskallast við, hlusta ekki á þjóðina og halda að þeir geti það eins og þeir hafi allan heiminn fram undan til að stjórna þessu landi.

Það kemur að því að kosið verður aftur og fylgið er strax farið að hrynja af þessum flokkum. Menn skulu muna það þegar þeir haga sér eins og þeir gera.