143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:15]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég amast ekki við því að haldinn verði hér kvöldfundur en mér finnst það sjálfsögð krafa, úr því að þessi umræða er á síðustu metrunum, að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnarinnar séu viðstaddir hana og sýni á spilin hvað varðar næstu skref. Við höfum a.m.k. fengið að heyra og sjá í dag að hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins gera sér grein fyrir því að samþykkt tillögunnar, eins og hún liggur fyrir, felur í sér svik við kosningaloforð. Annars hefði hæstv. heilbrigðisráðherra ekki orðað það þannig í ræðu fyrr í dag: Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki svikið kosningaloforð, enn.

Ég held að menn ættu að svara þeim 50 þús. einstaklingum sem hafa skorað á ríkisstjórnina að beygja af leið, svara þeim tugum þúsundum mótmælenda sem hafa komið hingað hvern dag og svara 82% þjóðarinnar sem segjast í skoðanakönnun vilja ljúka viðræðunum.

Það hlýtur að vera erfitt fyrir hæstv. ráðherra að vera í þessari stöðu. Þess vegna er ágætt ef þeir koma hingað og taka þátt í hópstyrkingu með okkur hinum í minni hlutanum (Forseti hringir.) og sýna aðeins á spilin og hvernig þeir sjá fyrir sér að komast út úr þeim ógöngum sem þeir hafa leitt yfir sig.