143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:19]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg sátt við svörin sem hæstv. forseti gaf mér hér áðan. Þó svo að hæstv. forseti hafi með einhverjum hætti verið að reyna að koma skilaboðum til stjórnarflokkanna og forustumanna þeirra í dag um að reyna að koma á fundi þá gerðist það ekki. Menn hefðu alveg getað sagt sér fyrr í dag að sú gæti orðið niðurstaðan.

Manni líður eins og þetta sé partur af einhverju leikriti: Nú er sko kominn tími til að koma upp úr kafinu og sýna vald okkar. Við skulum hrúgast inn í þingsal, ekki til að fara á mælendaskrá eða taka þátt í umræðu heldur til að sýna þeim hver ræður og hver meiri hlutinn er í þinginu. Ég er mjög spæld yfir því að hæstv. forseti skuli taka þátt í þessu vegna þess að það kemur sér afar illa fyrir okkur sem erum með fjölskyldu og lítil börn að svona sé gert með svo skömmum fyrirvara.

Ég sætti mig ekki við þessi svör vegna þess að það hefði verið hægt að gera þetta í morgun. Það hefði verið langheiðarlegast og hreinlegast.