143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég er komin hingað öðru sinni til að kvarta undan þeirri ákvörðun virðulegs forseta að ætla að halda úti kvöldfundi. Ég er mjög hissa á þeirri ákvörðun. Í fyrsta lagi vegna þess að hæstv. utanríkisráðherra sagði það í gær að hann væri ánægður með rólega umræðu og það lægi ekkert á, sagði þetta einhvern veginn á þá leið: Það liggur ekkert á og við skulum taka umræðuna.

Í öðru lagi er ég undrandi yfir ákvörðun forseta vegna þess að umræðan er endanleg, hver þingmaður hefur fyrst tíu mínútur og síðan fimm mínútur, þannig að í friði hefði verið hægt að láta umræðuna bara ganga sinn gang. En þess í stað velur virðulegur forseti ófriðinn. Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þessa ákvörðun í því ljósi þar sem virðulegur forseti hefur margoft lýst því yfir, og ég veit það, að hann hefur reynt að koma hér á góðum friði og greiðlegum þingstörfum.