143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:27]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að hrósa hæstv. forseta fyrir ákvarðanirnar hér fyrr í vikunni en nú er ég allt í einu farinn að efast um hver hefur dagskrárvaldið í þinginu. Hér kemur hæstv. utanríkisráðherra og tilkynnir hvernig dagskráin á að vera og hvað standi til (Gripið fram í: Og hvernig hefðir …) og það kemur mér afar mikið á óvart þar sem ég þekki þann sem nú situr í stól hæstv. forseta ef hann lætur það stjórnast af hæstv. utanríkisráðherra.

Það sem ég tók líka eftir var að hæstv. utanríkisráðherra óskaði eftir því að taka til máls um fundarstjórn forseta og komst strax að. Þetta er regla sem hefur gilt í þinginu, ef ráðherrar óska eftir því að koma í umræðu er þeim hleypt fram fyrir. Nú eru þeir allir í húsi, allir sjálfstæðismennirnir sem við erum búin að vera að bíða eftir að segi okkur eitthvað um sína skoðun þannig að við þurfum ekki að vera að tala við þá eftir viðtöl við þá í blöðunum og svara þeim svo í þinginu. Nú eru þeir komnir í hús og ég skora á þá að við tökum okkur tíma fram yfir níu eða eitthvað í kvöld, fáum þeirra ræður þannig að við getum brugðist við þeim (Forseti hringir.) þegar við förum í (Forseti hringir.) seinni ræðuna í þessu stóra máli. (Forseti hringir.) Þeim er velkomið að koma fram fyrir. Fyrst einstaklingar eru farnir að taka dagskrárvaldið hér (Forseti hringir.) ætla ég að leyfa mér það líka.