143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:32]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þess er kannski ekki að vænta að ríkisstjórn Íslands taki þátt í umræðum á Alþingi. Þessi sama ríkisstjórn hefur ekki einu sinni vit á því að taka þátt í samningaviðræðum heldur stendur sjálf upp frá borðinu og gengur frá því. Þeim sem verður ekki skotaskuld úr því að klúðra stórkostlegum hagsmunum Íslands á alþjóðavettvangi verður ekki skotaskuld úr því að klúðra þinghaldinu.

Það er rétt að það hefur legið fyrir að ríkisstjórnin vildi gjarnan klára þetta mál í gegnum umræðu sem allra fyrst, helst í þessari viku. Hún hefur gjarnan viljað ræða sín sviknu loforð í skjóli kvöld- og næturfunda. En það hefur alltaf legið fyrir að það yrði tekið óstinnt upp ef það yrði reynt. Við höfum lagt á það áherslu að ræða þetta málefnalega í björtu og reyna að endurreisa virðingu Alþingis. Það er stjórnarmeirihlutinn sem kýs að fara fram í marsmánuði með kvöld- og næturfundum til að reyna að koma svikum sínum í gegnum umræðu í skjóli myrkurs. Það er leitt að forseti Alþingis taki þátt í því og ég óska eftir því að kallaður verði saman fundur þingflokksformanna til að reyna að ná (Forseti hringir.) einhverri skynsamlegri niðurstöðu um það hvernig þessum málum megi halda áfram.