143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Öndvert við ýmsa sem hafa talað vil ég lýsa fullu trausti á fundarstjórn hæstv. forseta. Ef meiri hlutinn vill hafa hér fund verður hann að sýna þann vilja sinn með atkvæðagreiðslu og ég mun þá beygja mig undir það, þó að ég viti um fátt jafn erfitt og að þurfa að sitja hér næturfund og sjá dag rísa, eins og allir vita. Ég er því tilbúinn að leggja það á mig fyrir vondan málstað ef það er vilji meiri hlutans.

Ráðsnjallastur okkar allra, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, var aldrei þessu vant með ákaflega vonda tillögu þegar hann lagði til að hæstv. forsætisráðherra kæmi í íshokkíbúningnum sínum hingað til fundar. [Hlátur í þingsal.] Sömuleiðis er ég ekki viss um að það hafi verið góð tillaga hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að ráðherrarnir greiddu fyrir þingstörfum með ræðum. Ég er ekki viss um að það flýtti fyrir eða bætti umræðuna. Ég yrði hins vegar ákaflega glaður ef hæstv. utanríkisráðherra mundi láta svo lítið af og til að svara spurningum sem til hans er beint. Það mundi greiða fyrir umræðunni.