143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[18:39]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að forseti hefur ákveðið að boða til fundar með þingflokksformönnum og vonandi náum við þar að komast að einhverri niðurstöðu um það hvernig við ljúkum þessu máli og umræðum um það.

Það er ekki hægt að láta eins og ekkert hafi gerst á þeim tveimur vikum sem liðnar eru í þessu máli. Það hefur orðið gríðarleg þróun. Ég er ekki bara að tala um að skoðanakannanir sýni vilja 82% þjóðarinnar, 50 þús. undirskriftir og mótmæli dag eftir dag. Ég er líka að tala um ummæli eins og ummæli hæstv. heilbrigðisráðherra hér í dag sem segir Sjálfstæðisflokkinn ekki hafa svikið nein kosningaloforð enn. Ég er líka að tala um ummæli þingmanna á borð við hv. þm. Karl Garðarsson, þingmann Framsóknarflokksins, sem gaf áheit um að þessu máli yrði töluvert breytt, og eins orð hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar.

Ég held að það sé ekki hægt að halda kvöldfund og ljúka þessu máli án þess að við fáum að sjá á spilin hjá stjórnarmeirihlutanum og menn gefi aðeins til kynna hvernig þeir hyggist leysa (Forseti hringir.) þetta mál. Það er þess vegna sjálfsögð krafa að óska eftir viðveru ráðherra ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) við umræðuna hér í kvöld.