143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

lengd þingfundar.

[18:46]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi varðandi atkvæðagreiðsluna sem hér fer fram þá er alvanalegt að farið sé fram á kvöldfund og ég hygg að á síðasta kjörtímabili hafi verið sett met í því að knýja fram kvöldfundi til að koma fram málefnum ríkisstjórnarinnar. En það sem er kannski mikilvægara er að ekki fer neitt tækifæri forgörðum við það að málið komist til nefndar til að taka til skoðunar aðrar leiðir, eins og hér er kallað eftir. Það er einmitt fyrst þar sem tækifæri gefst til að ræða þær hugmyndir sem fram hafa komið í þinginu. (Gripið fram í.) Hvaða hugmyndir? kalla menn fram í. Hugmyndir sem aðrir þingflokkar hafa lagt fram og er einmitt ákveðið nú þegar að komi til skoðunar í nefndinni. (Gripið fram í.)

Til að málið komist til nefndar þarf að ljúka umræðunni. Það er kallað eftir viðveru allra ráðherra. Það er ekki þannig að öll ríkisstjórnin þurfi að vera viðstödd þegar einstaka þingmenn flytja ræður um þingsályktunartillögu (Gripið fram í.) og það verður ekki þannig að öll ríkisstjórnin sitji undir allri umræðunni. Ég hef hins vegar tekið þátt í umræðu m.a. um (Forseti hringir.) Evrópuskýrsluna og þar komu fram fjölmargar spurningar sem tengjast þessu þingmáli og ég (Forseti hringir.) svaraði mörgum þeirra spurninga sem menn segja (Forseti hringir.) að sé enn ósvarað.

Ég sé ekkert að því að hér sé haldinn kvöldfundur (Forseti hringir.) og við reynum að koma málinu til nefndar.