143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

lengd þingfundar.

[18:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Lýðræði er ekki bara eitthvað sem menn flagga í hátíðarræðum. Lýðræði er það þegar menn hafa auðmýkt til að hlusta á þjóð sína og þjóðin kallar eftir þeirri auðmýkt hjá hæstv. ráðherrum og stjórnarliðum öllum. Nú höfum við rætt þetta umdeilda mál í nokkra daga og mér finnst hæstv. ráðherrar sýna málinu ósköp lítinn áhuga, svo maður skilur ekki út af hverju menn leggja svona mikla áherslu á að þjösna því í gegn án þess að koma sjálfir að þeirri umræðu.

Ég segi það, sem andstæðingur þess að ganga inn í Evrópusambandið, að með því eru menn, stjórnarliðar, að fá æ fleiri Íslendinga til liðs við það að skoða með jákvæðara hugarfari að ganga í Evrópusambandið, og jafnvel vera komnir á þá línu að vilja það án þess að vita hvað er í pakkanum. Ég vísa ábyrgð til hæstvirtra ráðherra og stjórnarliða hvernig málum er háttað. (Forseti hringir.) Hafa þeir ekki fylgst með fréttum og skoðanakönnunum? (Forseti hringir.) Hvar eru menn staddir?