143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

lengd þingfundar.

[18:50]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég verð að taka undir með félögum mínum sem hér hafa talað varðandi lengd þingfundarins. Ég velti fyrir mér hvað það er sem hæstv. ráðherrar óttast ef þeir tjá sig um málið í ræðustólnum. Af hverju taka þeir ekki þátt í umræðunni? Af hverju svara þeir ekki því kalli í ljósi þess að þeir muni þá væntanlega liðka til með málið? Það hlýtur að vera öllum til framdráttar að svo verði gert, ekki síst til að sýna þjóðinni — fólk hefur ítrekað komið á Austurvöll og skráð sig á undirskriftalista svo tugþúsundum skiptir — þá virðingu að láta þjóðina vita, sem og okkur þingmenn, hver þeirra raunverulega afstaða er gagnvart því að breyta eða taka aftur þá tillögu sem hér liggur fyrir og hver skoðun þeirra er í rauninni á þjóðaratkvæðagreiðslu eins og kallað hefur verið eftir. Hvert á framhald málsins að vera? Það er ekki nóg að segja að það geti tekið hugsanlegum breytingum. Tillagan er vond eins og hún er og þjóðin vill ekki (Forseti hringir.) hafa hana.