143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

lengd þingfundar.

[19:01]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. 50 þús. manns, rúm 20% atkvæðisbærra manna á Íslandi, og 82% þjóðarinnar í könnunum kalla eftir því að greidd verði atkvæði meðal þjóðarinnar um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

Formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þingmaður og hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson, kemur hingað og segir: Ja, ég er ekkert skyldugur til þess að taka þátt í umræðu um þetta mál. (Fjmrh.: Ég sagði það aldrei.) Með öðrum orðum eru hæstv. ráðherra Bjarni Benediktsson og forusta Sjálfstæðisflokksins, einnig varaformaðurinn, hæstv. ráðherra Hanna Birna Kristjánsdóttir, að segja hér: Við þurfum ekki að taka þátt í þessari umræðu. Okkur nægir að segja við fólk: Ja, við höfum skipt um skoðun af því að við höfum komist að þeirri niðurstöðu að okkur sé betur borgið utan Evrópusambandsins, en sjá ekki neinn tilgang í því að koma í ræðustól Alþingis og greina þjóðinni og þinginu frá því hvers vegna (Forseti hringir.) þau hafa komist að þessari niðurstöðu. Það er bara ekki lengur þannig að menn fylgi forustu Sjálfstæðisflokksins (Forseti hringir.) í blindni. Það sjáum við í könnunum, (Forseti hringir.) það sjáum við hér úti. Það sjáum við líka (Forseti hringir.) á undirskriftunum sem núna er að finna á thjod.is. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Forusta Sjálfstæðisflokksins er komin (Forseti hringir.) í þá stöðu að hún er farin að þurfa að svara (Forseti hringir.) fyrir sig. Það þarf hún að gera hér.