143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

lengd þingfundar.

[19:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég segi nei við kvöldfundi og fundi fram á nótt. Ég er ekki að kvarta undan því í sjálfu sér að þurfa að sitja hér fundi fram eftir. Við vorum á fundi í þarsíðustu viku og þegar honum lauk var klukkan langt gengin í fjögur um nótt. Við vorum að ræða stöðuskýrslu um Evrópusambandið, en á henni átti síðan að byggja áframhaldandi umræðu um þessa tillögu, svo það er ekki málið, heldur að menn eru að fara kolranga leið. Mér finnst að þegar við erum farin að sjá fyrir endann á þessari umræðu eigi menn að sýna sjálfum sér og þinginu þá virðingu að vera viðstaddir ræður þingmanna.

Mér fannst ég skilja á orðum hæstv. fjármálaráðherra áðan að hann væri að nálgast okkur í þessu máli, en það þarf aðeins meira til. Hann þarf að gefa út einhverja yfirlýsingu eða ræða við okkur um hvað hann getur gert til þess að mæta stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) í þessu máli. Ég fann votta (Forseti hringir.) fyrir vilja til þess og hann þarf að hafa kjark til þess að ganga fram (Forseti hringir.) og láta Framsóknarflokkinn ekki stjórna hér ferðinni.