143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:01]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar til þess að nota þann stutta tíma sem ég hef í þessari síðari ræðu minni um þetta mikilvæga mál til þess að fara aðeins yfir þá stöðu sem upp er komin í málinu frá því að þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra var dreift hér fyrir næstum því þremur vikum, ef mér reiknast rétt til.

Tillagan kom mjög óvænt inn í umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands og setti það mál í mikið uppnám, breytti því frá því að vera umræða um kosti og galla aðildar að Evrópusambandinu í það að verða umræða um það hverjir ættu að taka ákvörðun um inngöngu, hverjir hefðu sagt hvað hvenær og hversu langt menn hefðu gengið í að heita því í aðdraganda síðustu kosninga að þessu máli yrði ekki lokið án aðkomu þjóðarinnar.

Sú staða er núna komin upp í málinu að ekki er vefengt að forustumenn núverandi ríkisstjórnar í báðum flokkum létu í veðri vaka að viðræðunum yrði ekki hætt án þess að tryggð væri aðkoma þjóðarinnar að þeirri ákvörðun. Þess vegna er það í mínum huga og í huga margra annarra þegar þeir heyra hið ókunnuglega orð, „ómöguleiki“, sem er nú orðið okkur mörgum svo tamt, að þeir geta ekki hugsað um neitt annað orð en „óheiðarleiki“, vegna þess að snúið er af þeirri leið sem lagt var upp í. Hugsanlega héldu menn að þeir gætu með loðnu og óskýru orðalagi farið í einhverja ákveðna atburðarás eða sett upp einhverja ákveðna sviðsmynd sem væri svo hægt að túlka að vild þegar inn á kjörtímabilið væri komið. En það má öllum ljóst vera sem verið hafa þátttakendur í þessari umræðu og fylgst með henni að þetta reynist stjórnarflokkunum ekki auðvelt.

Í rauninni, ef menn skoða þau ummæli sem fallið hafa í umræðunni í þingsal og úti í samfélaginu hjá þingmönnum á borð við hv. þingmenn Guðlaug Þór Þórðarson og Karl Garðarsson, sem eru hvor úr sínum stjórnarflokknum, og nú síðast í dag ummæli frá hæstv. heilbrigðisráðherra sem sagði að Sjálfstæðisflokkurinn ekki svikið nein loforð enn, má skilja að nú sé komin upp svolítið breytt staða í málinu. Hæstv. fjármálaráðherra hefur sjálfur látið hafa það eftir sér og sagt opinberlega að í ljósi þeirrar stöðu sem upp er komin verði með einhverju móti að reyna að finna leið til þess að tryggja aðkomu þjóðarinnar að þessari ákvörðun.

Það var von mín fyrir þennan fund að það næðist að tryggja þann lægsta samnefnara í málinu að menn hétu því þegar málið færi inn í hv. utanríkismálanefnd að því yrði ekki lokið án aðkomu þjóðarinnar. Ég held að allir geti eða eigi að geta fallist á það. Það eina sem þarf til þess að það gerist er samtal forustumanna stjórnmálaflokkanna.

Því miður er það svo að menn, sérstaklega Framsóknarflokksmegin í þessu samhengi, virðast ekki vilja ræða þennan möguleika, virðast ekki vilja setjast niður og ræða þann möguleika að gefa út þá yfirlýsingu sem mundi leiða til friðar og laga málið mjög, þ.e. að Evrópusambandsmálinu verði ekki lokið án aðkomu þjóðarinnar. Með því eru þeir sem eru í mínum þingflokki, þingflokki Bjartrar framtíðar, búnir að víkja töluvert út frá stefnu sinni ef þeir fallast á slíka málamiðlun, því að það er stefna okkar að ljúka viðræðunum og bera aðildarsamning undir þjóðina.

Ég veit að nú er farið að styttast mjög í umræðunni, (Forseti hringir.) en ég held að það sé enn þá færi, enn þá rými til þess fyrir þá sem hér starfa (Forseti hringir.) ríkisstjórnarmegin og minnihlutamegin (Forseti hringir.) til að ná sátt í þessu máli og samkomulagi. (Forseti hringir.) Ég skora á menn að reyna það til þrautar.