143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:06]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst biðjast afsökunar á því við hv. þingmann að ég er kannski að biðja hann um að koma með mér í örlítinn skyggnilýsingarleiðangur, að þessi fundur fari að breytast í skyggnilýsingarfund. Eins og komið hefur fram hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins, aðrir en hæstv. utanríkisráðherra, ekki tekið þátt í þessari umræðu. Þeir hafa hins vegar talað um þetta mál fyrir utan þingsalinn og við höfum heyrt, eins og hv. þingmaður nefndi áðan, í einstaka þingmönnum og ráðherrum, að þeim lítist vel á eitt og annað sem verið er að leggja til til málamiðlunar. Þeir hafa hins vegar ekki verið tilbúnir til að koma hingað upp í þennan ræðustól og svara spurningum okkar þingmanna, eða þá að gefa þær sömu yfirlýsingar hér.

Ég vil því biðja hv. þingmann, sem hefur áralanga reynslu af því að lesa í pólitíska stöðu og lesa í það sem gæti verið að gerast, að velta því fyrir sér með mér af hverju menn eru ekki tilbúnir til að koma hingað í stólinn og ræða þetta, en eru hins vegar tilbúnir að gefa eitt og annað í skyn fyrir utan þennan sal. Þeir hafa gert það áður, reyndar verið mun skýrmæltari og svikið það blákalt um þessa tillögu — ég spyr hv. þingmann hvort hann telji að þeir ætli sér yfir höfuð að gera eitthvað með þetta, hvort þeir ætli sér ekki bara að keyra málið í gegn. Við fáum enn eina vísbendingu um það en nú klukkan hálfsex var allt í einu kallað til atkvæðagreiðslu og ákveðið að keyra málið fram í nóttina án nokkurs fyrirvara. Það er harla óvenjulegt að það sé ekki gert í upphafi þingfundar.

Ég bið hv. þingmann að velta því aðeins fyrir sér með mér hvort a) við getum yfir höfuð treyst orðum þeirra, sem sögð eru hér fyrir utan salinn og b) hvort hann telji yfir höfuð að þeir ætli sér að gera nokkuð annað en að keyra (Forseti hringir.) málið óbreytt í gegn.