143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:08]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í frægri íslenskri bíómynd var mjög fræg sena af skyggnilýsingu þar sem sögð voru nokkur „inn“ og nokkur „út“. Það er kjarninn í þessari umræðu allri hvort við eigum að fara inn eða vera úti. Því miður er það svo að í þessari umræðu hefur hæstv. forsætisráðherra aðallega verið úti og ekki verið mikill þátttakandi í þeirri umræðu sem hér fer fram.

Ef ég á að reyna að setja upp greinandagleraugu held ég að mikill ágreiningur sé á milli stjórnarflokkanna um það hvernig halda eigi á málum. Ég held satt best að segja að það sé ástæðan fyrir því að fátt er um svör þegar beðið er um að menn sýni á spilin. Hæstv. ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hafa gefið yfirlýsingar um að þeir séu tilbúnir til að skoða hitt og þetta, þeir hafa verið fáanlegir til að setjast niður með minni hlutanum hér á þingi. Á sama tíma hefur ekki verið vilji til þess hjá hæstv. forsætisráðherra. Hann hefur að vísu verið upptekinn við að ferðast á erlendan vettvang og taka að sér margvísleg hlutverk, fyrir íshokkílið o.s.frv., og verður að virða honum það til vorkunnar, en það hefði samt sem áður átt að falla í hans hlut að kveða menn til fundar, að reyna í sameiningu að finna lendingu í málinu.

Auðvitað er það í verkahring hæstv. forsætisráðherra og það er líka skylda hæstv. utanríkisráðherra að benda hæstv. forsætisráðherra á þá verkskyldu sína. Orð eru til alls fyrst og hægt hefði verið að leysa þetta mál og er enn hægt að leysa það ef menn vilja.