143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:13]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað þannig að það er langt í frá að ríkisstjórnin sé með allt á hreinu í þessu máli. Af því að ég vitnaði í þá ágætu bíómynd hér áðan þá kom upp sú sena í þeirri fínu kvikmynd að Harpa Sjöfn neyddist til að segja við Stinna stuð — og ég ætla að milda orðalagið þegar ég hef það eftir: Rosalega ertu minni háttar.

Sú staða hlýtur að koma upp í þessu ástarsambandi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks að annar þeirra segi við hinn: Við þurfum að reyna að verða aðeins meira meiri háttar í þessu máli og rísa upp úr þeim mikla deilufarvegi sem það er komið í. Auðvitað er það þannig í þessu máli að allt atvinnulífið er á móti ríkisstjórninni. Stærstu fyrirtæki landsins láta í sér heyra. Það eru forstjórar stærstu fyrirtækjanna, þeirra sem eru í mestri útþenslu, þeirra sem eru í mestu nýsköpuninni, þeirra sem ráða flesta í hálaunastörf, sem hafa samband við ráðherra og þingmenn stjórnarflokkanna í þessu máli.

Það er mikill ófriður í samfélaginu sem er sýnilegur, en ég held því líka fram að þar sé ókyrrð sem enn sem komið er er ósýnileg, fólk sem trúir því ekki enn að svona eigi að fara með loforðin, að svona eigi að fara með vilyrðin um að þessu máli verði ekki lokið án aðkomu þjóðarinnar. Ég skora á hæstv. utanríkisráðherra, sem er staddur í salnum, að koma hingað upp og lofa okkur stuðningi við það verkefni að ljúka ekki þessu máli án þess að við förum í útfærsluna, án þess að þjóðin hafi aðkomu að því.