143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók eftir því í ræðu hv. þingmanns að hann talaði svolítið um það hvernig væri kannski hægt að ná sátt um þetta mál. Ég velti fyrir mér eftir það sem á undan er gengið hvernig það gæti hugsanlega gerst. Mér finnst eins og það sé hreinlega ekkert hægt að treysta því sem er sagt. Það er alltaf einhver misskilningur á ferðinni þannig að ég er orðinn hálfringlaður yfir því hvað það er sem menn ætluðu nákvæmlega að semja um.

Í því sambandi langar mig að spyrja hv. þingmann hver hann telji vera þau efnisatriði sem væri yfir höfuð hægt að semja um. Ýmsar spurningar fylgja þessu máli, t.d. að slíta viðræðum versus að gera hlé á viðræðum. Mér finnst skrýtið í raun og veru hvað við höfum lítið rætt muninn á því hérna í þinginu. Mér finnst önnur efnisatriði hafa fengið aðeins meiri athygli, sem mér finnst skrýtið miðað við það að þingsályktunartillagan varðar slit og það er jú það sem veldur aðaltogstreitunni hérna. Annað varðar auðvitað aðkomu þjóðarinnar, hvernig hún yrði. Nú er auðséð vegna tímaskorts og vegna þess að lög fyrirbyggja að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu meðfram sveitarstjórnarkosningum að hún verður ekki, en þá væri kannski hægt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu í ágúst eða seinna á kjörtímabilinu eða hvernig sem það yrði.

Það sem ég er að velta fyrir mér hvað varðar ræðu hv. þingmanns er: Hvaða efnisþættir þessarar þingsályktunartillögu mundi hann telja að gætu orðið til þess að sátt næðist, þ.e. hvað væri lægsti sameiginlegi samnefnarinn sem hv. þingmaður gæti séð sér fært (Forseti hringir.) að sætta sig hugsanlega við í einhvers konar (Forseti hringir.) sáttafyrirkomulagi (Forseti hringir.) sem gæti komið upp á borðið?