143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:22]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Í síðustu kosningum voru mörg mál sem við ræddum lítið og hefðum þurft að ræða meira en við gerðum, t.d. umhverfisvernd og utanríkismál, Evrópumálin. Það voru önnur mál sem skyggðu á umræðuna.

Það er auðvitað valkostur í stöðunni líka sem ríkisstjórnin þarf að velta fyrir sér, úr því að þessi staða er komin upp og úr því að henni er það mikið kappsmál að geta komið hreint fram við Evrópusambandið, að boða á ný til kosninga svo að menn séu alveg með það á hreinu hvaða valkostir séu í stöðunni. Það er engin smáákvörðun fyrir eitt samfélag, eina þjóð, hvort taka eigi þátt í því samfélagi sem Evrópusambandið er með öllum þeim skyldum og réttindum sem því fylgja.

Ég held að menn hafi farið fram úr sér við þessa ákvörðun, með flutningi þessarar tillögu. Ég hef heyrt stjórnarþingmenn lýsa því þannig að þetta hefði þurft meiri tíma, það hafi verið mistök að fara með málið svona hratt fram og fara með þessa tillögu inn í umræðuna um kosti og galla aðildar. Þegar menn gera mistök verða þeir auðvitað að vera menn til þess að leiðrétta þau. Þegar menn beygja af leið og eru komnir út í skurð verður að reyna að leiðrétta það með einhverjum hætti. Það er auðvitað sú staða sem við blasir á stjórnarheimilinu, þ.e. ósamstæðir stjórnarflokkar sem hafa ekki leyst þetta mál sín á milli.

Það eru nokkrar lausnir í sjónmáli. Ein þeirra er pottþétt ekki til þess að leysa þetta mál og það er óbreytt tillaga hæstv. utanríkisráðherra.