143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:30]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér áðan var þess óskað að ráðherrar og þingmenn stjórnarmeirihlutans létu í sér heyra og skýrðu út afstöðu sína til framhalds málsins sem og annars. Ég er hér með yfirlit yfir þá sem hafa tekið þátt í umræðunni og af hálfu meiri hlutans hafa sex þingmenn tekið þátt í umræðunni með ræðu, örfáir hafa komið í andsvör. Allir þessir þingmenn eru einungis búnir með fyrri ræðu sína og sumir fullnýttu ekki þann tíma, þannig að mér þætti vænt um að þeir sýndu okkur þann sóma að taka þátt í umræðunni. Þeir óskuðu eftir því að við ræddum þessi mál í kvöld og við óskuðum um leið eftir því að þeir sýndu okkur þá virðingu að taka þátt í umræðunni. Þeir eiga augljóslega mikið inni til að bæta hér í sarpinn og skýra málin eins og við höfum óskað eftir.