143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:32]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera athugasemd við fundarstjórn forseta vegna þess að ég sá ekki betur fyrr á fundinum en hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefði beðið um orðið, hann hefði óskað eftir að hann kæmist á mælendaskrá. Ég skildi hann a.m.k. þannig að hann ætlaði að taka þátt í umræðunni og mér finnst sjálfsagt að verða við því að setja hann á mælendaskrá. Það vill svo ágætlega til í þessu nýja kerfi okkar að við getum horft á mælendaskrána í símanum okkar hérna á borðinu og hann er alls ekki á henni þannig að það þarf greinilega að kippa því í liðinn.

Mig langar að spyrja hæstv. utanríkisráðherra sem heiðrar okkur hér með nærveru sinni, og ég þakka honum kærlega fyrir það, hvort hann geti sagt eitthvað svipað og fjármálaráðherra. Það mundi einfalda okkur lífið ef hann gæti sagt eitthvað svipað, hann lýsi vilja til að beita sér fyrir því að samkomulag verði meðal þingmanna að viðræðunum verði ekki slitið án aðkomu þjóðarinnar. Ef hann mundi bara svipta sér hingað í stólinn og segja svo sem eins og þetta mundi tilveran verða töluvert einfaldari fyrir okkur öll. (Forseti hringir.) Þetta hefur legið í loftinu í umræðunni. Er ekki bara sjálfsagt af hæstv. utanríkisráðherra (Forseti hringir.) að láta svo lítið að líta upp úr tölvunni og hjálpa okkur með að færa umræðuna aðeins af stað.