143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:36]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherrar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Bjarni Benediktsson, Illugi Gunnarsson og Kristján Þór Júlíusson óskuðu eftir því fyrr í dag að það yrði kvöldfundur. Þau hafa ekki séð sér fært að vera við umræðuna hingað til og svara spurningum okkar þannig að ég hlýt að biðja hæstv. forseta um að láta þau vita að þingfundur sé hafinn að nýju eftir kvöldverðarhlé og þau geti komið hingað og átt við okkur samtal um þessi mál. Við óskuðum ekki eftir því að fá kvöldfund. Við óskuðum eftir því að eiga við þau samtal.

Ef menn eru það litlir að þeir telja að það sé í lagi að koma hingað einungis til að senda þingmenn inn í kvöldið án þess að vera hér sjálfir ætla ég að nefna það líka, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) að ég er næst á mælendaskrá og ég mun ekki hefja ræðu mína (Forseti hringir.) fyrr en þeir ráðherrar sem óskuðu eftir kvöldfundi eru komnir í salinn.