143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Seinasti ræðumaður tók orðin eiginlega úr mínum munni, þessi kvöldfundur var víst hugsaður til þess að eiga samtal við hæstv. ráðherra og hv. stjórnarliða en þeir eru ekki hér, sem er reyndar ekkert nýtt.

Ég styð hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur heils hugar í því að hefja ekki ræðu sína fyrr en hæstv. fjármálaráðherra er mættur á svæðið því hann lofaði því jú, sagði það alla vega, maður veit náttúrlega ekki hvað maður kallar loforð nú til dags, en hann sagðist að minnsta kosti ætla að halda ræðu. Mig langar til að fara í andsvar við hann vegna þess að mig langar að vita hvernig hann ætlar að rökstyðja þá þingsályktunartillögu sem við erum að reyna að ræða hérna. Eins og venjulega er hæstv. ráðherra ekki hérna og ég velti fyrir mér hvort forseti geti svarað því hvort hæstv. fjármálaráðherra sé í húsinu, geti frætt okkur um það, eða hvort von sé á honum svo við getum talað við hann efnislega. Fyrst það voru hæstv. ráðherrar og hv. stjórnarliðar sem óskuðu eftir þessari umræðu finnst mér alveg sjálfsagt(Forseti hringir.) að þeir séu á staðnum til að taka þátt í henni.