143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:46]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það heyrðist úr sal áðan frá hv. þingmanni að það væri eins og við þingmenn værum að tala við guð og aldrei svarað, en ég sé núna að við höfum verið bænheyrð. Hæstv. fjármálaráðherra hefur gengið í salinn, svo bænir skila árangri og maður gleðst auðvitað yfir því. Ég held að rétt sé þá að við höldum áfram bænum okkar og óskum og þá muni hæstv. ráðherrar birtast hver af öðrum, að það skili sér í hús ef við leggjumst áfram á bæn. Ég sem trúuð kona, ég veit ekki um aðra hv. þingmenn hér inni, ég hef fulla trú á því að þetta geti skilað árangri og menn komi hingað í umræðuna fullir af krafti og endurnærðir og tali fyrir því út af hverju í ósköpunum menn telja að rétt sé að slíta viðræðunum frekar en ljúka þeim og leyfa fólkinu í landinu að gera upp hug sinn með samning fyrir framan sig.