143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:49]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir því að þeir ráðherrar sem hér óskuðu sérstaklega eftir kvöldfundi yrðu að minnsta kosti viðstaddir. Ég var svo barnaleg að leyfa mér að vona að þau væru kannski svona spennt að heyra ræðu mína að þau gætu ekki beðið til morguns. Þau eru ekki komin í hús en ég vonast til þess að boðin hafi komist til þeirra í tæka tíð þannig að þau nái kannski spurningunum í lok ræðu minnar. Ætli ég verði ekki að vera þakklát fyrir að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sé kominn? Ég vona að hann sé kominn á mælendaskrá.

Það hefur verið fyrir neðan allar hellur hvernig þessi umræða hefur verið látin fara fram. Hér höfum við verið í þessu risastóra máli sem er svo stórt að 50 þús. Íslendingar, meira en 20% atkvæðisbærra Íslendinga, hafa skrifað undir áskorun til ríkisstjórnarinnar um að leyfa sér að koma að þessari ákvörðun. Í slíku máli hefði maður haldið að áhugi þessarar ríkisstjórnar væri einhver á því að hlusta á þessar óskir og þessa áskorun og það væri einhver áhugi á því hjá þessari ríkisstjórn að hlusta á það þegar 82% þjóðarinnar segja í skoðanakönnun að þau vilji fá að koma að ákvörðun um þetta risastóra mál. Menn ættu að gera þó svo lítið að sitja í þingsalnum og hlusta á það sem þingmenn hafa að segja um þetta mál.

Nei, á fimmtudegi er hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra mættur undir kvöld á kvöldfundi sem hann óskaði eftir, og er það vel, en á fundinn eru ekki mættir þeir hæstv. ráðherrar Hanna Birna Kristjánsdóttir, Illugi Gunnarsson, Kristján Þór Júlíusson og hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem þó dröttuðust hingað inn til að óska eftir kvöldfundi og greiða atkvæði um það. Þau eru samt ekki hér, þeim finnst þessi umræða ekki nógu mikilvæg til að þau taki þátt í henni. Þar höfum við það, þá vitum við þingmenn hvaða hug þessir ráðherrar bera til þessa þings. Hann er ekki fagur. Það er bara fullkomið áhugaleysi í þessu stærsta máli og þá veit þjóðin líka hvaða hug þessir ágætu ráðherrar bera til hennar vegna þess að hér er svo stórt mál á ferðinni að stjórnarflokkarnir eru orðnir algerlega viðskila við aðila vinnumarkaðarins, meira og minna öll samtök atvinnurekenda í landinu. Flokkarnir eru orðnir viðskila við þau 50 þúsund sem hafa skrifað undir á thjod.is og þessi ríkisstjórn er orðin algerlega viðskila við þau 82% þjóðarinnar sem segja í skoðanakönnunum að þau vilji fá að koma að ákvörðun um þetta mál. Og hvað segir ríkisstjórnin? Hún segir: Þið bara sjáið um þetta, þið getið rætt þetta. Jú, jú, henni líst ágætlega á eina og aðra hugmynd, segja menn einhvers staðar í fjölmiðlum, en þeir eru ekki til í að koma í neitt samtal um þetta. Þetta er valdhroki og ber þessari ríkisstjórn ekki gott vitni en er svo sem í anda þess sem við höfum heyrt frá henni og einstaka þingmönnum hennar áður um það. Við erum með meiri hluta á þessu þing, við ráðum, hugsa þeir.

Ég ætla að minna á að þessir ríkisstjórnarflokkar fengu ekki nema 51% í síðustu kosningum og það vald er mjög vandmeðfarið þegar maður hefur eingöngu 51% sér að baki. Það þýðir ekki að með þessu 51% í kosningum eigi maður að valta yfir hin 49%. Að fara með vald er viðkvæmt og þessi ríkisstjórn er að sýna hér að henni er alveg sama. Hún ætlar að ráða og við sjáum hvaða aðferðum hún ætlar að beita til þess með því að koma hingað upp eftir að hafa ekki tekið hér þátt en koma í hópferð niður í Alþingi rétt fyrir kvöldmat á fimmtudegi til að fara fram á kvöldfund af því að nú á aldeilis að sýna hver ræður. Þetta er það sem við búum við.

Ég er gríðarlega ósátt við þessa málsmeðferð og hefði viljað að allt tal um samstöðu og samvinnu yrði raungert. Okkur hefur tekist það sums staðar. Okkur tókst til dæmis nýlega í umhverfis- og samgöngunefnd að ná saman um mjög erfitt mál vegna þess að við ætluðum að ná saman. Við gengum út frá því að við gætum það og þá gátum við það. Hér er farið þveröfugt að. Menn gera bara ráð fyrir því að það verði ekki hægt og þar með ætla þeir ekki einu sinni að reyna það. Allt tal um að menn ætli að reyna það er bara sýndarmennska af hálfu þessarar ríkisstjórnar og það sannaði þessi krafa um kvöldfund hér í kvöld.

Virðulegi forseti. Mig langar að koma inn á ómöguleikann og spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann er í salnum, aðeins um hann. Hann hefur verið kjarninn í rökstuðningi hæstv. ráðherra fyrir því að að þessi ríkisstjórn geti ekki samið við Evrópusambandið um aðild og lokið þessum viðræðum vegna þess að flokkarnir tveir sem eru í ríkisstjórninni séu á móti inngöngu í Evrópusambandið og þess vegna verði að slíta. Þessi röksemdafærsla hefur fengið nafnið ómöguleikinn. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra, af því að hann er í ráðuneyti sem hefur á sínum snærum að framfylgja mjög mörgum lagasetningum sem hafa verið settar fyrir löngu, og hann er örugglega ekki sammála þeim öllum: Er honum þá ómögulegt að framfylgja þessari lagasetningu? Er ómöguleikinn líka þar?

Ef maður kann að vinna eins og fagmaður og skipa fagfólk til verka er vel hægt að klára þessar viðræður. Ég spyr hæstv. ráðherra: Getum við búist við því að fá sama rökstuðning þegar menn fara hugsanlega að misbeita valdi í stjórnkerfinu? Það var bara ákveðinn ómöguleiki fyrir okkur að framfylgja þessu vegna þess að við erum, báðir flokkarnir, á móti þessu.

Þetta gengur ekki upp og þessi ríkisstjórn verður að koma með betri rök fyrir því að ætla að fara gegn 82% þjóðarinnar og slíta þessum viðræðum án aðkomu þjóðarinnar. Þessi rök halda ekki vatni. Ómöguleikinn er ekki til nema maður sé að segja að maður sé sjálfur vanhæfur eða algjörlega ófær um að vera faglegur í störfum. Ég trúi ekki að hæstv. ráðherra tali þannig um sig og sína ríkisstjórn vegna þess að ég veit að hann getur vel verið faglegur. Ég mundi alveg treysta honum til að setja gott fólk til verka og reyna að ná fram bestu mögulegu niðurstöðu.

Það sem ég er að segja er: Hættið þessum vitleysisrökum og segið okkur sannleikann um hvað býr þarna að baki. Af hverju fara menn gegn öllu atvinnulífinu? Af hverju eru menn að fara gegn heimilunum í landinu, stórum hluta íslenskra heimila sem þrá ekkert heitar en losna úr verðtryggingunni? Það er til dæmis verið að loka á þann möguleika með þessu. Við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra vitum að Seðlabankinn og fleiri aðilar hafa gert greiningar á því að tvær leiðir séu færar, þ.e. að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru eða vera með krónu í einhvers konar höftum, mismiklum eftir árferði og tíð, og árstíð eins og við erum að sjá núna. Hvers vegna eru menn í þessum flýti með þessu offorsi að svíkja sín eigin loforð, loka þessum dyrum og segja fullkomlega skilið við atvinnulífið og ekki síst hið nýja atvinnulíf, hátæknifyrirtækin og alþjóðageirann sem er ljóst að við þurfum að horfa til hvað varðar frekari vöxt til lengri tíma? Við viljum alvörusvör, ekki einhver svör um einhvern ómöguleika sem er ekki til.

Umræðan um Evrópusambandið snýst um svo miklu meira en við náum að fara yfir í þessari umræðu á þessum stutta tíma. Hún snýst um lífskjör og frið í Evrópu. Hún snýst kannski ekki síst um það að við Íslendingar förum að standa keik, sækja fullveldið okkar aftur með því að eiga sæti sem fullvalda og sjálfstæð þjóð (Forseti hringir.) við borðið með öllum hinum fullvalda og sjálfstæðu þjóðunum í Evrópu og taka ábyrgð á okkar eigin framtíð í staðinn fyrir að teika trukkinn eins og við erum að gera núna.