143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[20:59]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Við deilum þeirri skoðun að við viljum að þjóðin fái aðkomu að þessu stóra deilumáli til langs tíma og fái að segja skoðun sína á því hvernig því verður lokið.

Hv. þingmaður kom inn á evruna og möguleika þjóðarinnar á að losna við verðtrygginguna. Mig langar að heyra það betur frá hv. þingmanni hvernig hún sjái fyrir sér að þau mál þróist ef við hugsanlega gengjum í Evrópusambandið. Hve langan tíma tæki það fyrir okkur miðað við stöðuna í dag að taka upp evru, hvaða skilyrði þyrftu að vera fyrir hendi?

Ef við værum laus við verðtryggingu, hvað sér hún þá fyrir sér að taki við? Telur hún að við fengjum lægstu vexti eins og eru í sumum löndum í Evrópu eða telur hún að í stað verðtryggingar, sem lengi hefur verið við lýði hér, tækju jafnvel við hærri vextir eins og eru í mörgum löndum Evrópu. Það er ekki sama vaxtastig í boði alls staðar. Hvað sér hún fyrir sér í þeim efnum, hvernig sér hún fyrir sér að þessi mál þróist?

Mér finnst það ábyrgðarhlutur að vekja væntingar fólks um að verðtryggingin þýði að miklu ódýrara verði að fá lán en er í dag. Í dag er verðtrygging valkostur, það er ekki svo að eingöngu bjóðist verðtryggð lán.