143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vandinn við stöðuna sem við búum við í dag er sá að við erum með miklu fleiri en einn gjaldmiðil. Við erum með verðtryggða krónu, við erum með óverðtryggða krónu og svo erum við með erlenda gjaldmiðla sem stóru fyrirtækin gera upp í.

Hverjir eru að nota verðtryggðu krónuna? Það eru íslensk heimili og það eru litlu fyrirtækin í landinu, einyrkjarnir. Það eru þeir sem eiga að fá að vera í íslensku krónunni. Stóru fyrirtækin eru hætt að nota hana, þau gera upp í annarri mynt, flest í evrum. Þetta er staðan eins og hún er í dag.

Verðtryggingin er ekkert annað en hið svokallaða Íslandsálag, þ.e. krónan er þannig gjaldmiðill að við þurfum að tryggja hana. Ef við værum með evru þyrftum við þess ekki. Að því leytinu til er okkar stefna, að kanna til þrautar hvað við getum fengið út úr aðild að Evrópusambandinu og upptöku evru, hin raunverulega leið að afnámi verðtryggingar sem svo margir flokkar hafa lofað svo fjálglega í kosningum.

Sjáum hvað er að koma út úr skýrslu sem nýverið var skilað til forsætisráðherra. Það á að banna lánaflokka, verðtryggða lánaflokka. Hvers konar afnám á verðtryggingu er það? Kerfið er enn gegnumverðtryggt fyrir því. Það breytir engu. Þá bara höldum við áfram í öllum þessum skekkjum sem eru að verða hér til með þeim ólíku gjaldmiðlum sem við notum á Íslandi í dag. Og við höldum áfram að vera með heimilin í landinu í limbói eða inni í litlu tilraunabúri ættum við kannski frekar að segja. Næst ætlum við að prófa að allir taki bara óverðtryggð lán og sjá hvað gerist. Ég vil bara ekki búa við þessi stöðu. Ég vil búa í öruggara umhverfi (Forseti hringir.) og ég tel það algerlega ófært að loka (Forseti hringir.) á þessa leið áður en menn hafa lagt fram annað plan.