143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:05]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi þurfum við að ná Maastricht-skilmálunum. Stærsti þröskuldurinn þar er skuldastaða þjóðarbúsins. Það fer eftir því hve dugleg við verðum að ná því niður hvenær við gætum náð Maastricht-skilyrðunum. Ef ég nefni það á þessum stutta tíma sem helsta þröskuldinn. En það er eitthvað sem við þurfum hvort eð er að vinna á. Við ætlum ekki að hafa skuldastöðuna eins og hún núna er til langframa. Það heyrist mér vera þverpólitísk stefna, það virðist vera stefna flestra flokka, að vinna á skuldastöðunni og reyna að ná henni niður þannig að við getum farið að nota þá milljarðatugi sem við greiðum í vexti árlega í þarfari verkefni hér innan lands.

Virðulegi forseti. Ég held að við eigum ekki að óttast umræðuna um að taka upp nýjan gjaldmiðil með aðild að Evrópusambandinu eftir þá reynslu sem við höfum haft af krónunni. Hvernig getur það orðið verra? (Forseti hringir.) (Gripið fram í.) Það bara getur ekki orðið verra en það sem við höfum búið við. Við erum að tala um þetta í fullkominni óvissu (Forseti hringir.) um það hvað verður um krónuna og gjaldeyrishöftin hér á landi, fullkomna, og þá megum við ekki loka dyrunum (Forseti hringir.) að framtíðarlausnum sem gætu bætt hag okkar Íslendinga.

(Forseti (SilG): Forseti beinir því að þingmanni að virða ræðutíma.)