143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:14]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er engu nær um það hvers vegna hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra telur á þessum tímapunkti mjög mikilvægt að loka annarri af tveimur leiðum okkar til að halda hér einhverri öflugri peningastefnu til lengri tíma, hvers vegna það sé svo mikilvægt að rífa í neyðarhemil, slíta viðræðum samstundis þvert á það sem atvinnulífið segir. Þá er ég að tala um allt atvinnulífið. Við getum rætt sérhagsmunagæslu undir öðrum kringumstæðum.

Þarna hef ég kannski ekki síst áhyggjur af því atvinnulífi sem er að byggjast hér upp í hinum svokallaða þekkingargeira. Það getur farið hvenær sem er. Það er ekki háð auðlindum, það er eingöngu háð hugviti og hefur líka sagt það, þeir atvinnurekendur koma fram hver á fætur öðrum og segja: Ef þetta verður gert er ákveðinn ómöguleiki í því að reka fyrirtæki á Íslandi. (Forseti hringir.) Þar liggur hinn raunverulegi ómöguleiki, virðulegi forseti.