143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:15]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi ómöguleiki er orðinn aðalviðfangsefnið aftur.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins út í peningamál, út í evruna sérstaklega. Nú liggur fyrir að jafnvel þótt við færum inn í Evrópusambandið á morgun tæki samt dágóðan tíma að taka upp evruna, bæði ferlið sjálft að taka upp evruna, þ.e. skipta um gjaldmiðil og allt sem er gert, og sömuleiðis að ná þeim efnahagslegu forsendum sem þarf til þess að hægt sé að byrja á því ferli. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvað þetta er ofboðslega langt ferli. Það hefur verið gagnrýnt hvað þetta hefur tekið ægilega langan tíma, en þetta hefur ekki kostað neinar ægilegar upphæðir; undir milljarði, ef ég man rétt, kostuðu þessi fjögur ár, sem er bara ekki há tala á skala ríkissjóðs. Það þarf ekki nema miða við Þjóðleikhúsið eða sinfóníuhljómsveitina til þess að finna svo svakalegar upphæðir. Þetta er því ekki hátt upphæð. Þetta kostar engar teljandi fjárhæðir í stóra samhenginu, en þetta tekur tíma. Ég hefði haldið að það væri bara merki um að menn færu varlega.

Ég öðlaðist meiri trú á að hægt væri að láta þessar samningaviðræður ganga upp eftir að ég las skýrsluna. Það virðist fara svolítið eftir því hver les hana hvernig hún kemur út, ég veit ekki alveg með það.

Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvað varðaði upptöku evrunnar, að því gefnu að við gengjum í ESB, hversu langan tíma og hvernig hv. þingmaður sæi fyrir sér í grófum dráttum að við næðum þeim efnahagslegu markmiðum sem þarf til þess að geta tekið (Forseti hringir.) hana upp yfir höfuð. (Gripið fram í.)