143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:23]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Ég vil gera athugasemd við fundarstjórn forseta. Mér þótti hann sýna hæstv. fjármálaráðherra fulllítinn skilning í ræðustólnum áðan. Það var eðlilegt að það var nokkuð um frammíköll loksins þegar formaður Sjálfstæðisflokksins kom til umræðunnar en fyrir vikið hafði formaðurinn ekki þann tíma sem mönnum er ætlaður hér í andsvörum og mér fannst hann fá bjölluna í höfuðið býsna hratt. Það verður auðvitað að sýna því skilning þegar ræðumenn sæta frammíköllum og gæta þess að þeir fái tíma til þess að ljúka máli sínu og njóta þess tíma sem þeir eiga að hafa hér í ræðustólnum.

Ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra er kominn á mælendskrá og býð velkomna hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og vonast til þess að sjá hana líka á mælendaskránni. En um leið auglýsi ég eftir hæstv. menntamálaráðherra, Illuga Gunnarssyni og hæstv. ráðherrum Ragnheiði Elínu Árnadóttur og Kristjáni Þór Júlíussyni og inni forseta eftir því hvort þau séu hér á leiðinni til umræðunnar eða hvort forseti hafi gert ráðstafanir til þess að tryggja það að þau komi hér á fundinn þannig að umræðan geti gengið vel og málefnalega fyrir sig.