143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:30]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. innanríkisráðherra er komin í salinn og fyrir það þakka ég. Mig langar þá að benda hæstv. forseta á að fyrir kosningar sagði hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Að sjálfsögðu mun Sjálfstæðisflokkurinn standa við það að þjóðin fær að ákveða það hvort það verði gengið lengra í þessu máli. Það er þjóðarinnar en ekki einstakra stjórnmálamanna.“

Ég vona, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra komi hér upp á eftir og fari yfir það með okkur af hverju hún telur að rétt sé að rífa núna í handbremsuna og slíta viðræðum án aðkomu þjóðarinnar, hvað hafi breyst þarna á milli. Ég bið um það, virðulegi forseti, að hinn pólitíski ómöguleiki verði ekki dreginn upp á dekk aftur, vegna þess að ef hæstv. ráðherra dregur hann upp á dekk aftur er hún sjálf að segja að hún sé ekki fær um að standa faglega að störfum sínum innan stjórnsýslunnar. Og ég trúi því ekki að menn ætli áfram, eins og þeir hafa gert (Forseti hringir.) hingað til, að hamra á þessum svokallaða pólitíska ómöguleika. Hann heldur ekki vatni.