143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:36]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu. Það er gaman þegar nýir vinklar eru teknir á umræðurnar. Mér hefur fundist hún vera að festast svolítið í kappræðum andstæðra póla í staðinn fyrir að fólk leyfi sér að sjá tækifæri í því að ljúka samningaviðræðum og leggja niðurstöðuna fyrir þjóðina.

Þingmaðurinn talaði aðeins um unga fólkið. Ég get tekið undir margt sem hann sagði. Það vantar kannski þennan félagslega þátt í skýrsluna sem við vorum að fjalla hér um á dögunum, of mikið var horft á efnahagsmálin en margt annað vantaði. Þó kemur fram að hagur ungs fólks í mörgum Evrópusambandslöndum er ekkert sérstaklega góður. Unga fólkið er að flytja inn á foreldra sína aftur, það er atvinnuleysi, þannig að ekki er allt bjart í Evrópu frekar en verið hefur hér. Mig langar að vita hvort þingmaðurinn deilir því með mér að hafa lesið það út úr þessari skýrslu, hvort málum sé þannig háttað.

Mig langar að velta því upp með þingmanninum af því að mér finnst óábyrgt að fallast á þessa tillögu ríkisstjórnarinnar. Mér finnst það ekki virðingarvert að draga umsóknina til baka með þessum hætti. Ég veit ekki hvað veldur því að ríkisstjórnin þorir ekki að takast á við að leggja málið í dóm þjóðarinnar. Telur hv. þingmaður að hagur ungs fólks í Evrópu sé betri eða verri en hér á landi og að hagur ungs fólks hér heima batni við að ganga í Evrópusambandið?