143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:41]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég get svo sem tekið undir það sem hann sagði. Þegar við horfum yfir til þessara landa viljum við vissulega ekki loka neinum möguleikum, það er mín tillaga í þessari umræðu að gera það ekki. Eins og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni um efnahagsmálin liggja ekki fyrir neinar formlegar tillögur um gjaldmiðilsmálin eða annað, þannig að ég tel að nú sé ekki rétti tíminn til að setja þetta strik yfir eins og hæstv. utanríkisráðherra leggur hér til og ríkisstjórn hans.

Við sem höfum haft efasemdir um aðildina að Evrópusambandinu höfum nefnt þessa miðstýringu, það að missa tökin eða yfirráðin yfir því sem snýr að okkur beint. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann telji að miðstýring eigi eftir að aukast í Evrópusambandinu og hvernig hann sjái það fyrir sér að okkar hagur yrði ef svo væri.

Það er kannski það sem maður óttast mest. Eins og við höfum rætt hér höfum við misst ákveðið vald nú þegar gegnum EES-samninginn og fleiri samninga sem við erum skuldbundin af. Þess vegna vill maður kannski stíga niður fæti og sjá hvað er í boði. Ég hef talað fyrir því að við fáum samning sem við getum tekið afstöðu til í staðinn fyrir að fílósófera mikið um hvað gæti gerst og hvað ef eitthvað gerðist.

Mig langar að spyrja þingmanninn um miðstýringuna (Forseti hringir.) og stöðu okkar hvað það varðar.