143. löggjafarþing — 75. fundur,  13. mars 2014.

umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu dregin til baka.

340. mál
[21:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Hann orðaði það þannig að það væri nostalgía í hans framtíðarsýn og þá skildi ég hann þannig að nostalgían liggi í því hvernig það var hér áður fyrr þegar menn vildu kaupa sér bíla en gátu bara keypt Lödu vegna ákveðinna viðskipta við Sovétríkin. Ég man enn þá lengra. Ég man þegar það var sjómannagjaldeyrir, námsmannagjaldeyrir og ferðamannagjaldeyrir. Mér finnst við jafnvel vera að koma inn í það núna. Það er ekki bara hætta á að við lokum landinu, heldur erum við komin inn í það. Við erum með tvöfalt gengi, að minnsta kosti; aflandsgengi og opinbert gengi. Við erum með tvær krónur; krónuna og verðtryggða krónu.

Ef við horfum til framtíðarinnar er þetta það sem við ætlum að bjóða barnabörnunum eða barnabarnabörnunum upp á? Að þau búi í þjóðfélagi þar sem eru þrjú gengi, námsmannagjaldeyrir, ferðamannagjaldeyrir og þar fram eftir götunum? Áhyggjur mínar felast í því að ég er hrædd um að unga fólkið fari, jafnvel þótt aðstæður í Evrópu séu ekki jafn góðar og þær voru kannski fyrir tíu, fimmtán árum, þær eru misjafnar eftir löndum eins og hér hefur komið fram. Ég hef áhyggjur af því að unga fólkið okkar hérna fari. (Forseti hringir.) Þá hef ég í framhaldinu áhyggjur af framtíð landsins. Ég spyr hvort þingmaðurinn gæti velt þessu (Forseti hringir.) aðeins fyrir sér með mér.